Framtíðarsýn
K64 er langtíma stefnumótandi þróunaráætlun fyrir nærsvæði Keflavíkurflugvallar, mikilvægustu gátt Íslands við umheiminn. Þróunaráætlunin er heildstæð efnahags- og skipulagsleg áætlun fyrir svæðið. Í þróunaráætlun K64 er svæðið kallað Keflavíkurflugvallarsvæðið eða Keflavik Airport area. Á þessu svæði eru meðal annars Keflavíkurflugvöllur og byggðarlögin í næsta nágrenni hans, Reykjanesbær og Suðurnesjabær. Svæðið er í aðeins 50 km fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu og er hluti af Suðurnesjum, einstöku landsvæði sem hefur hlotið vottun sem UNESCO jarðvangur. Á Suðurnesjum búa 31 þúsund íbúar og er það hluti af því sem stundum er nefnt stór-höfuðborgarsvæðið, þar sem búa rúmlega 310 þúsund manns.
Þróunaráætlun K64 er afrakstur margra ára vinnu og samvinnu fjögurra lykil hagsmunaaðila: Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar, Isavia og fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þessir fjórir samstarfsaðilar skipa jafnframt stjórn Kadeco, Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, sem stofnað var árið 2006. Kadeco er fyrirtæki í eigu íslenska ríksins og leiðir þróunaráætlun K64 og er vettvangur fyrir fjárfesta og þróunaraðila sem vilja fjárfesta og staðsetja sig á svæðinu.
Drifkrafturinn á bak við áætlunina er sameiginlegur skilningur helstu hagsmunaaðila á mikilvægi þess að starfa saman og leggja fram heildstæða stefnu fyrir Keflavíkurflugvallarsvæðið, sem byggir á styrkleikum þess og tekur á helstu áskorunum.
Leiðarljós Þróunaráætlunar K64 er skuldbinding Íslands við kolefnishlutlausa framtíð og sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna (SÞ), nýsköpun og vistvæn tækni ásamt öflugu samstarfi við helstu hagsmunaaðila og samskipta við sveitarfélög. Áætlunin verður markaðssett undir vörumerkinu K64 sem var sérstaklega þróað fyrir þetta verkefni.